143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að því tilskildu að hugur fylgi máli hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og að við megum leyfa okkur að túlka orð hæstv. utanríkisráðherra þannig að þar séu einnig opnanir á ferðinni þá opnast að mínu mati breytt svið til þess að ræða bæði form og tímasetningar gagnvart því hvernig málinu yrði skotið til þjóðarinnar. Það er vendipunktur málsins.

Eru að skapast aðstæður til þess að stjórnarflokkarnir hverfi frá hugmyndinni um að gefa loforðum sínum og fyrirheitum langt nef og leita alls ekki til þjóðarinnar eins og til stóð? Ef svo er finnst mér að menn eigi að taka því með opnum huga og segja: Setjumst niður og ræðum form og tímasetningar á því. Að vísu vil ég hafa alla fyrirvara á, m.a. þess vegna sakna ég hæstv. forsætisráðherra. Ráðgjafi formanna stjórnarflokkanna, sem hefur verið mjög umtalað í fjölmiðlum að undanförnu að hitti hann dögum oftar og sitji jafnvel með honum á kvöldin, gaf línuna í morgun í leiðara Morgunblaðsins. Það voru einföld skilaboð, það var tvennt sem ætti að gera, virðulegur forseti, taka málfrelsið af þingmönnum, hætta við þessa tillögu og slíta viðræðum án aðkomu þingsins. (Gripið fram í: Kosningar 20…) Það var lýðræðishugsunin í Hádegismóum.

Ég vil hafa þann fyrirvara á að það þurfi að koma í ljós hvaða innstæður eru fyrir því að það sé að koma opnun á það að leita til þjóðarinnar með málið. Án þess að ég ætli endilega að tala fyrir hönd allra þingmanna Vinstri grænna þá mundi ég ætla að við værum alveg opin fyrir því að ræða bæði form og tímasetningar á því hvernig málinu og hvenær nákvæmlega því yrði skotið til þjóðarinnar. Ég er líka sammála því að æskilegt væri, ef hægt væri, að nýta undirbúningstímann, hver sem hann yrði, til málefnalegrar og uppbyggilegrar (Forseti hringir.) umræðu og skoðanaskipta um þetta stóra mál. Við vitum auðvitað heilmikið nú þegar úr meðal annars því ferli sem að baki er og getum skoðað stöðuna í ljósi núverandi aðstæðna o.s.frv.