143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held áfram að spinna þennan þráð og gef mér það, eins og hv. þingmaður, að leiðtogar stjórnarflokkanna ráði sínum ráðum sjálfir en séu ekki sendimenn annarlegra afla. Þá kemur að því að maður hugsi: Með hvaða hætti væri hægt að vinna málið á næstu mánuðum eða missirum fram að því að þjóðin gæti fengið aðkomu að því?

Ég held að umræða undanfarinna vikna sýni betur en nokkuð annað að umfjöllun um Evrópumál í landinu er í algjörum helgreipum hindurvitna. Það er ótrúlegt að stjórnarflokkar láti sér detta í hug að demba þessari tillögu inn í þingið á grundvelli jafn lítillar greiningar og er þó að finna í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Skýrslan er góð fyrir sinn hatt en ákaflega veikburða og ekki tæmandi á nokkurn veg. Það einkennilegasta við hana er að á fundum utanríkismálanefndar með skýrsluhöfundum kom í ljós að þeir voru aldrei beðnir um hagsmunamat. Það liggur líka fyrir að í skýrslu aðila vinnumarkaðarins, sem þeir hafa beðið um frá Alþjóðamálastofnun, verður hagsmunamat. Þar verður ítarlegri umfjöllun um kosti og galla gjaldmiðilsins o.s.frv.

Ég velti þess vegna fyrir mér: Gæti ekki verið leið að sjá fyrir sér á næstu mánuðum og jafnvel missirum að áfram yrði unnið í greiningu á hagsmunum einstakra atvinnugreina, hagsmunum einstakra þjóðfélagshópa, ítarlegra hættumat yrði unnið varðandi gjaldmiðilinn o.fl. og mat á kostum, ábata og mögulega yrði greining á því hvernig Evrópusambandið (Forseti hringir.) gæti komið okkur til samvinnu og aðstoðar við afnám gjaldeyrishafta o.s.frv.? Allt þetta lægi þá frekar fyrir í aðdraganda (Forseti hringir.) ákvörðunar þjóðarinnar.