143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[00:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, í sjálfu sér held ég að þetta gæti allt saman verið gagnlegt, að glíma við greiningar á þessum þáttum, bæði hagsmunatengdum þáttum og öðrum. Ég mundi líka sjá fyrir mér stöðumat á utanríkispólitískri vígstöðu Íslands í þessu samhengi.

Ég held reyndar að þetta sé tiltölulega einfalt. Mitt mat er að þetta mundi allt saman róast gagnvart hinni pólitísku umræðu, gagnvart hagsmunaaðilum, sem auðvitað hafa mismunandi sjónarmið, og gagnvart þjóðinni ef tvennt kæmi út úr umfjöllun Alþingis um þetta mál, fyrr eða síðar. Annars vegar væri ósköp einfaldlega hægt að segja: Verið róleg, umræðunum verður ekki slitið hér og nú án aðkomu þjóðarinnar. Hins vegar: Það verður leitað til þjóðarinnar. Það mundi róa deilur um þetta mál verulega niður. Ég held að það sem veldur því hversu heitt hefur orðið undir sé meðal annars að mönnum finnst eins og eigi á ólýðræðislegan hátt, án aðkomu þjóðarinnar og gegn gefnum loforðum, að taka nánast endanlegar ákvarðanir allt í einu núna.

Allt róast um leið og sagt verður: Við höfum séð að okkur. Við ætlum ekki að læsa dyrunum og henda lyklinum. Við ætlum ekki að taka neinar slíkar „óafturkræfar ákvarðanir“. — Það held ég að yrðu brútalslit á margan hátt til einhvers tíma. — Við skulum bíða með það, gerum það ekki. Verið þið róleg, það verður svo þjóðin sem kemur með einum eða öðrum hætti, eins og Bessastaðabóndinn mundi segja, að því að ákveða næstu skref.