143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er út af fyrir sig góð ábending hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég hafði ekki áttað mig á því að við erum í þeirri óvenjulegu stöðu að aðstoðarmaður forsætisráðherra hefur málfrelsi og tillögurétt á Alþingi, meira að segja atkvæðisrétt. Það er mjög óvenjulegt. Ég hafði allmarga aðstoðarmenn eða hef haft í minni ráðherratíð en enginn þeirra hefur nokkurn tíma haft málfrelsi og tillögurétt á Alþingi. Þetta eru viss hlunnindi. Ef aðstoðarmaðurinn hefur umboð til þess að svara fyrir forsætisráðherra, úr því að forsætisráðherra mætir alls ekki, þá er það kannski viss leið að við fáum boðskapinn úr Stjórnarráðinu frá forsætisráðherra í gegnum aðstoðarmanninn af því að hann er svo fjölhæfur að vera líka þingmaður.

Varðandi stöðu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum og þau fyrirheit sem hann gaf fyrir kosningar þá kemur tillagan auðvitað á óvart út frá landsfundarsamþykktum flokksins, (Gripið fram í: Og Vinstri græn…) út frá yfirlýsingum allra ráðherra flokksins fyrir kosningar, út frá stjórnarsáttmálanum sem í raun og veru minnist hvergi á slit á viðræðunum, reyndar kannski loðið orðalag. Ég hef að vísu ekki heyrt formann Sjálfstæðisflokksins staðfesta með beinum hætti fullyrðingar forsætisráðherra úr margfrægu viðtali um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki óskað eftir því að þetta væri einhvern veginn öðruvísi orðað í stjórnarsáttmálanum. Það kom vissulega á óvart þegar tillagan kom á borðið og voru stórtíðindi í þessu ljósi. Ofan af því hafa menn síðan verið að vinda í áföngum.

Auðvitað verður Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur að svara þessu gagnvart sér og sínum, það er hans hlutverk. Ég ætla mér ekki þá dul að ganga lengra í þeim efnum en að túlka bara mín viðbrögð við því hvernig þetta hefur birst frá og með kosningabaráttunni, (Forseti hringir.) kosningaáherslum Sjálfstæðisflokksins, landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins og stjórnarsáttmálanum sem í sjálfu sér (Forseti hringir.) hélt því öllu opnu (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn gæti staðið við sín loforð. (Forseti hringir.) En það er tillagan sem er hin mikla stefnubreyting í þessu.