143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Þótt ég hafi haft orð á því áðan að stigið hefði verið hænuskref með yfirlýsingu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra má líta svo á, miðað við hvernig verið er að túlka það hér, að skrefið hafi verið nokkru stærra. Það sem eftir stendur og er afar óþægilegt er að vita ekki nákvæmlega hvað fólst í yfirlýsingunni. Það er talað um að þjóðin eigi að fá aðkomu að því að segja álit sitt á þessari þingsályktunartillögu með einhverjum hætti. Ég hef sagt að það gangi náttúrlega ekki að spyrja um þingsályktunartillöguna því að hún sé þrískipt; um að draga umsóknina til baka, um að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik — ég sé ekki fyrir mér að menn beri það atriði undir þjóðina — og síðan um að treysta tvíhliða samninga og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríkin. Þetta þarf auðvitað að skýra betur.

Auðveldast og eðlilegast er að fara í tillöguna sem hefur verið sett fram af þeim sem hafa safnað undirskriftum, og þær eru orðnar nær 50 þúsund, um að hægt verði að velja á milli þess að halda áfram viðræðunum eða slíta þeim. Ég tel eðlilegast og sjálfsagt að reyna að koma því í atkvæðagreiðslu sem allra fyrst. Ég tel samt að menn eigi að standa við það sem sagt var í umræðunni þegar farið var af stað með skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að það ætti að eiga sér stað góð umræða, sem hún hefur raunar verið að mörgu leyti í þinginu á undanförnum dögum, og síðan ættum við að bíða eftir skýrslunni frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands þar sem aðilar vinnumarkaðarins fengju svör við ýmsum atriðum sem snúa að aðkomu fyrirtækja og fjölskyldna í landinu.

Því miður hefur Evrópusambandsumræðan snúist allt of lítið um hvað þetta þýðir fyrir almennt fólk í landinu. Það hefur enginn getað svarað því á undanförnum árum hvernig við ætlum að komast út úr því umhverfi sem við erum í í dag, út úr endalausum sveiflum í íslenska gjaldmiðlinum þar sem gengið er fellt og þar með færðar til umtalsverðar upphæðir og laun lækkuð eða kaupmáttarrýrnun verður gríðarleg við gengisfallið. Menn láta þetta yfir sig ganga, það er enginn sem getur sagt neitt. Fyrirtækin fá betri afkomu tímabundið, nú er gengið að styrkjast, þá fer útgerðin að kvarta, þ.e. eins og þetta er orðið núna. Hvað ætlum við að búa við þær sveiflur lengi? Hvaða lausnir eru til að komast hjá þeim? Við getum sagt endalaust: Það tekur mörg ár að komast í Evrópusambandið og fá evru. En það tekur náttúrlega enn þá lengri tíma ef við byrjum aldrei, ef við tökum aldrei fyrsta skrefið eða stígum ekki inn og tökum ákvörðun um það hvort við viljum fara þá leið.

Sá sem hér stendur keypti hús 1979, fékk á sig 100% verðbólgu og er búinn að fara í gegnum þetta allan þennan tíma og það hefur engin eignamyndun orðið í þessum húsum, þetta hefur nánast verið rifið úr höndunum á þeim sem fjárfestu á þeim tíma. Menn hafa orðið að búa við skerðingar aftur og aftur.

Þetta endurspeglaðist líka þegar maður kom á iðnþingið nýlega þar sem menn voru með fullan sal af fólki og nánast allir spurðu: Hvað stendur til að gera? Hvernig ætlið þið að bjarga ykkur út úr þessu? Hvernig á að losa um gjaldeyrishöftin? Hvernig getum við losnað við íslensku krónuna til að fá eðlilegt umhverfi fyrir íslensku fyrirtækin þannig að þau geti verið áfram á Íslandi og þurfi ekki að búa við endalausar sveiflur? Menn geta ekki svarað því eða gert áætlanir til lengri tíma.

Það er líka mjög dapurt að horfa upp á það sem gerðist hér eftir hrun þegar menn höfðu verðlagt til dæmis ferðaþjónustu í evrum og umreiknuðu svo fyrir Íslendingana í íslenskum krónum sem þá voru orðnar gríðarlega margar eftir hrunið. Menn þurftu svo að láta vita að þeir væru Íslendingar og var þá gefinn afsláttur svo þeir hefðu efni á því að kaupa þjónustuna sem var í boði. Ætla menn að bjóða upp á þetta endalaust án þess að þora að taka umræðuna? Er einhver leið út úr þessu? Er Evrópusambandsleiðin möguleg? Hvaða afleiðingar hefur hún fyrir sjávarútveg og landbúnað? Hér er margbúið að kalla eftir því að þetta verði klárað, að við ljúkum þessu, fáum svörin, látum þjóðina ráða og sætum niðurstöðunni þannig að við þurfum ekki að vera hér klukkutímum og dögum saman að ræða sömu málin.

Ég ætla að vona að það sem hefur komið fram við þessa umræðu og þau mótmæli sem hafa verið hér fyrir utan, (Forseti hringir.) opni á að þjóðin fái að segja álit sitt varðandi (Forseti hringir.) framhaldið, að menn standi við það þegar þessar tillögur fara núna til (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar.