143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú háttar svo til í hans kjördæmi að þar situr ekki ráðherra Sjálfstæðisflokksins en þar fór líka fram kosningabarátta og ég vildi nota tækifærið og inna þingmanninn eftir því hvort Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi, undir forustu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, hafi haft uppi sömu loforð og allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa haft í sínum kjördæmum.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hv. þingmann hvernig hann meti viðbrögð eða öllu heldur viðbragðsleysi Framsóknarflokksins við yfirlýsingum formanns Sjálfstæðisflokksins hér í kvöld. Það vekur óneitanlega mikla athygli að nú eru liðnar nokkrar klukkustundir síðan formaður Sjálfstæðisflokksins gaf út tímamótayfirlýsingu, sem finna má í öllum fjölmiðlum landsins, og enn hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins, hvað þá ráðherra, komið hér upp og tjáð sig um þá yfirlýsingu.

Telur hv. þingmaður að við séum hér að fylgjast með djúpstæðum ágreiningi á milli stjórnarflokkanna? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefið tillögu utanríkisráðherra í óþökk samstarfsflokksins? Hafa þeir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins sem hér eru kannski ekki umboð til að tala í málinu? Hverju sætir það að hér situr hæstv. utanríkisráðherra á bekknum og þegir þegar formaður samstarfsflokksins hefur gefið út tímamótayfirlýsingu um hans eigin tillögu? Hefur flokkur forsætisráðherrans algerlega misst málið í máli sem hann þó sjálfur flytur hér á hinu háa Alþingi?