143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að við erum að tala hér um verulegt klúður. Að leggja af stað í þessa umræðu með yfirlýsingu í stjórnarsáttmála um að skoða eigi hver staðan sé og spá síðan í framhaldið, bíða eftir skýrslu, við fáum þá skýrslu og rétt þegar hún er komin til umræðu kasta menn fram þessari tillögu. Tillagan er ekki einu sinni betur gerð en svo að það þarf að reka menn til baka með hana. Það er í raun með ólíkindum að þetta skuli hafa gerst og fyrst og fremst sorglegt.

Það hefur áunnist eitthvað á þessum tíma, mönnum var brugðið og hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi að hann hefði ekki átt von á þessum viðbrögðum. Menn ofgerðu hlutunum bókstaflega. Það sem ég held að hafi gerst þarna og valdið þessu klúðri var að menn sáu að eitthvað var farið að gerast og ætluðu að rota málið strax. Þeir ætluðu að koma inn og segja: Nú klárum við þetta bara og þá erum við laus við þetta.

Sem betur fer eigum við enn þá þjóð og stjórnarandstöðu sem lætur ekki slíkt yfir sig ganga. Von mín í framhaldinu af þeim umræðum sem verið hafa hér í kvöld og í dag þar sem þessi yfirlýsing kom frá hæstv. heilbrigðisráðherra um að ekki hafi nú átt sér stað nein kosningasvik enn — ég velti vöngum yfir því hvort þetta væri hótun, að hann segði næstum: Við ætlum nú samt að láta þetta verða kosningasvik. En sem betur má kannski draga þá ályktun nú í kvöld að það sé í hina áttina, að menn ætli sem sagt að hindra það að hér verði kosningasvik og reyna að rétta kúrsinn. Ég vil trúa því að þegar þetta mál fer til nefndar — við höfum verið að bíða eftir skýrara svari því að við vitum ekki svarið, við vitum ekki nákvæmlega hvað verið er að gera, við vitum ekki alveg hver afstaða Framsóknarflokksins er. Við skulum vona að málið fari til nefndar til þess að finna lausn á því og að þjóðin fái að segja álit sitt. Við skulum reyna að leiða málið í farveg þar sem við sameinumst um leið og reynum að afgreiða það í eitt skipti fyrir öll, annað hvort til framhaldsvinnu (Forseti hringir.) eða að málið verði tekið af dagskrá.