143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög góð tillaga eða nálgun sem eigi að skoða. Ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra kemst til nefndar finnst mér þetta mjög áhugaverð tillaga, að finna einhvers konar útfærslu þar sem hægt væri að hafa þverpólitíska nálgun á þetta mál.

Varðandi ómöguleika verður allt að gjalli í höndunum á þessari ríkisstjórn en það er þannig að hún er með lýðræðislegan meiri hluta, þótt hann sé reyndar óeðlilega mikill. Af því að við búum við ójafnvægi í atkvæðum landsmanna eru þau náttúrlega miklu fleiri í þinginu en efni standa til. En hér er lýðræðislega kjörinn meiri hluti og við verðum að lúta því. Það er þó ekki ómögulegt að fara að vilja kjósenda, það er hægt að finna margar leiðir til þess að finna lausnir. Það voru mörg erfið mál á síðasta kjörtímabili og mörg þeirra óumbeðin og þá var farsælt þegar flokkarnir gátu hönd í hönd reynt að finna út úr málum og gæta sameiginlega hagsmuna landsmanna.