143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög merkilegt að þetta mál, sem er stórmál, varðar utanríkisstefnu Íslands og varðar það hvar Ísland vill staðsetja sig á alþjóðakortinu til komandi ára. Við erum ekki að taka endanlega ákvörðun um það, hér er bara verið að koma í veg fyrir að hægt verði að meta þau tækifæri. Ég tel því að hér sé á engan hátt verið að gæta almannahagsmuna. Hér er ekki verið að gæta þess að við getum með lýðræðislegum hætti haldið þessum möguleika opnum og fengið síðan að taka efnislega afstöðu til þess hvort Evrópusambandið sé eitthvað sem henti Íslandi og íslenskum aðstæðum.

Það er líka mjög merkilegt að hugsa til þess að Evrópusambandið bar nú oft á góma hér á síðasta kjörtímabili og var efnt til atkvæðagreiðslna um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það var t.d. hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni mikið hjartans mál. Ég velti fyrir mér af hverju þau vilja ekki fá tækifæri til þess að ræða það nú við okkur og af hverju þau vilja ekki einmitt fagna því að farið geti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Það eru ekki almannahagsmunir sem ráða för í þessari málsmeðferð.