143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[01:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er Evrópusambandið. Sumir eru fyrir fram á móti því og aðrir eru fyrir fram fylgjandi því og svo er fólk sem vill bara fá að hugsa sig betur um, fá að sjá hvernig þetta lítur út. Ég hugsa að það sé stærsti hópurinn. En það er einmitt fólk, aðildarsinnar, það segi ég auðvitað með einhverjum fyrirvara, sem upplifir að aðild að Evrópusambandinu sé mikilvæg til þess að tryggja hér betra samfélag. Hér eru fyrirtæki í þekkingariðnaði sem hafa lýst því yfir að þeim sé gert nánast ókleift að starfa ef við ætlum að halda áfram að vera með íslensku krónuna sem gjaldmiðil.

Hér liggur náttúrlega fyrir mál, kannski er það næsta mál eftir að búið verður að loka á framtíð innan Evrópusambandsins, þ.e. áburðarverksmiðja Framsóknarflokksins, það væri tækifæri. Það höfðar örugglega til sumra, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég sá í greinargerðinni að þetta eru hálaunastörf, reyndar ekki mjög mörg miðað við fjárfestinguna sem eru 120 milljarðar, það er tvisvar sinnum Landspítalinn. Fjárfestingarkostnaðurinn í áburðarverksmiðjunni er tvöfalt meiri en bygging á nýjum húsakosti fyrir Landspítalann. Ég veit ekki hvernig það verður t.d. að fá hámenntað fólk aftur til landsins.

Ég er líka alveg viss um að Ísland getur átt framtíð utan Evrópusambandsins. Hún verður með einhverjum hætti. Mér finnst bara að við eigum að geta metið það út frá einhverjum staðreyndum (Forseti hringir.) en ekki dylgjum.