143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð kúnstugt að það gerist í annað sinn að ég held ræðu á þriðja tímanum um nótt. (ÖS: Það er best þá.) Það kann að vera en mér finnst það samt umhugsunarefni að svona stórt umræðuefni skuli vera þannig rekið áfram að maður lendi ítrekað í þessari stöðu. (Gripið fram í: Og á þessum árstíma.)

Mér varð að orði áðan að harðlínuáherslur Heimssýnar hefðu greinilega verið lagðar til hliðar, a.m.k. í bili, og að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði rekið olnbogann í þá harðlínustefnu sem þar hefði verið uppi. Af því tilefni fór ég að skoða leiðara sem birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar. Það var nokkuð hress ritstjóri sem skrifaði þann leiðara og taldi að nú væri komið að miklum þáttaskilum í þessu óhræsismáli. Segir þá í leiðaranum, með leyfi forseta:

„Það hljóta margir virðulegir embættismenn í íslenska utanríkisráðuneytinu að ganga meðfram veggjunum þar þessa dagana. Það er þeim þó vonandi huggun harmi gegn, að óleyst bráðabirgðaundanþága vegna skatts á útfararþjónustu er ekki til trafala þegar aðildarbröltið verður endanlega jarðsett í næsta mánuði.“

Það er sem sagt spaug inn á milli, ég tek það fram ef fólk áttar sig ekki á því. Það sem stendur þó upp úr er að hér fagnar ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, sigri 28. febrúar, hann gerir það. Þegar slitatillagan er komin fram er hann nokkuð brattur, og bráður verð ég að segja, sérstaklega í ljósi þess að síðan hafa orðið nokkrar vendingar hjá fyrrverandi og núverandi forustumönnum Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson talar um söguleg svik, ein stærstu kosningasvik Íslandssögunnar eða mannkynssögunnar eða hvað það er, maður ruglar því orðið saman.

Síðan komu fram vendingar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í kvöld. Hvað sem manni kann að finnast um hugmyndir hæstv. ráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu segir hann meira að segja í ræðu sinni að hann telji ekki vit í því að setja neitt í þjóðaratkvæðagreiðslu nema það sem er á dagskrá hjá ríkisstjórninni. Mér finnst það dálítið þröng nálgun. Það mætti kannski víkka þetta yfir í þingið til að byrja með en þá gefur hann því að minnsta kosti undir fótinn að að því gefnu að þessi tillaga fari í gegnum þingið og sé samþykkt af 38 þingmönnum mínus þessi afföll sem hafa orðið undanfarna daga verður aðildarbröltið ekki endanlega jarðsett í næsta mánuði, eins og ritstjórinn skrifaði fyrir nokkrum vikum. Maður veltir fyrir sér hvernig stemningin sé þarna og verði á næstu dögum og vikum því að það er augljóst að sú harðlínunálgun sem hefur verið rekin bæði af Morgunblaðinu og Heimssýn á undir högg að sækja hjá forustu Sjálfstæðisflokksins. Það kann að vera að það sé til marks um einhver tíðindi á næstunni. Að minnsta kosti skyldi maður ætla að menn hefðu varann á sér á næstunni með að fylgjast með því hvernig þessu öllu saman vindur fram.

Þessi ríkisstjórn er um margt söguleg og kannski er það þannig að það sem er óvenjulegt við hana er hversu oft hún hreykir sér af Íslandsmetum. Hún talar oftar um eigin Íslandsmet en ég man eftir í annan tíma og meira að segja heimsmet í sumum efnum. Það sem er vandræðalegast er kannski Íslandsmetið sem er til hliðar og ríkisstjórnarflokkarnir tala ekki um og hvorki Heimssýnarhliðin né einhverjir aðrir, og það er Íslandsmet í fylgistapi. Um leið og öll heimsmetin og Íslandsmetin (Forseti hringir.) eru í farvatninu er þessi sama ríkisstjórn að missa fylgi og stuðning hraðar en hefur gerst í Íslandssögunni. (Forseti hringir.) Það skyldi þó aldrei verða að hennar verði fyrst og fremst minnst fyrir það.