143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi rétt fyrir sér, það lætur hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur ágætlega að flytja ræður á þessum tíma sólarhringsins. Það er synd að ræðan skyldi ekki fá að vera lengri þannig að við fengjum að heyra meira af ágætri framsögu hennar. Það hefði náttúrlega verið enn þá betra hefði hún fengið að flytja hana í dagsbirtu svo fleiri gætu notið. Mér fannst hv. þingmaður draga ágætlega upp mynd af því sem hún kallar ótrúlega vonda ríkisstjórn. Ég deili þeirri skoðun. Það hefur komið manni á óvart að hlutirnir hafa verið enn þá verri en það sem maður óttaðist. Kannski kemur alltaf betur og betur í ljós sú lýsing sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með, að ríkisstjórnin væri eins og ítalskur skriðdreki, ef ég man rétt, þar sem gírarnir væru fjórir aftur á bak og einn áfram og enn eru þeir að glíma við að vera í öðrum og þriðja og fjórða gír aftur á bak og komast ekki fram á við. Það er í rauninni þannig að mjög mikið af þeim málum sem koma inn eru frumvörp sem eru endurflutt frá fyrrverandi ríkisstjórn að einhverjum hluta eða er enn þá verið að skoða og þá koma partar af því inn vegna þess að menn ráða ekki við að fara með það allt. Menn tóku náttúruverndarlögin og reyndu að henda þeim o.s.frv.

Hér var verið að ræða um heimsmet. Ég fékk tækifæri til þess að heimsækja safnið á Strikinu í Kaupmannahöfn og leitaði að þessum nýju heimsmetum en þau hafa ekki verið skráð enn þá, ég get staðfest það.

Við vorum búin að vera með þessa tillögu í framhaldi af skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Ísland, en þar var það ríkisstjórnin sem skammtaði verkefnið og það átti að vera staða umsóknar Íslands um aðild að ESB annars vegar og hins vegar þróun ESB og síðan útlit varðandi þróun sambandsins. Það er eiginlega ekkert um hagsmuni. Það er ekkert um það hvernig heimilum muni reiða af sem (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn hefur talað um að sé (Forseti hringir.) ofarlega á blaði hjá henni.

Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns (Forseti hringir.) á því hvort við verðum ekki að kalla betur eftir þeim upplýsingum (Forseti hringir.) til þess að fá skýrari niðurstöðu.