143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sannarlega verið bent á það í umræðum um skýrsluna sem hv. þingmaður vísar til að hún er alls ekki fullkomin, enda fengu skýrsluhöfundar takmarkaða verklýsingu og var gert að skoða þessi mál út frá tilteknu sjónarhorni. Eins og hefur komið fram skortir þar til að mynda tilfinnanlega greiningu á pólitískum straumum í Evrópusambandinu. Þá eru manni sérstaklega hugleiknir þeir straumar sem hafa verið ansi mikið á hægri hliðina að því varðar efnahagsstjórnunina og niðurskurðaráherslur sem viðbragð við kreppu, sem eru áherslur sem svipar miklu meira til núverandi ríkisstjórnar hér en þeirrar sem var. Svona geta hlutirnir stundum snúist á haus.

Ég er sammála hv. þingmanni um að skýrslan sé engan veginn tæmandi grundvöllur ákvarðanatöku, en hún er hluti af grundvelli fyrir ákvarðanatöku. Mér hefur virst það og hvort það var í ræðum eða andsvörum við hv. formann utanríkismálanefndar og einhverjir fulltrúar úr nefndinni hafi tekið undir það að það væri hluti af viðfangsefni og verkefni nefndarinnar að bæta í það sem skortir á í því þegar nefndin er að skoða skýrsluna og fara yfir hana, en það er ekki til lykta leitt. Ég vonast auðvitað til þess að nefndin skoði það að fylla í eyðurnar, ef svo má að orði komast.

Af því ég orðaði það áðan svo að þetta væri óvenjulega vond ríkisstjórn lýsir það henni kannski betur, af því það er svolítið gildishlaðið orðalag, og einkennir hana og fas hennar og framgöngu að hún hagar sér meira eins og hún sé í stjórnarandstöðu við fyrrverandi (Forseti hringir.) ríkisstjórn en að hún sé réttkjörin til valda, eins og hún tönnlast á (Forseti hringir.) að sé veruleikinn.