143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:48]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið finnst mér rétt að taka fram að allir þeir ráðherrar voru viðstaddir þegar hv. formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, lýsti því yfir að hann væri á mælendaskrá og mundi tala inn í nóttina þannig að þeir ráðherrar sem óskað var eftir að væru á staðnum voru þá á staðnum og heyrðu orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Það getur því ekki verið á ábyrgð forseta þingsins að þessir aðilar kjósa að vera ekki hér og nú.

Mér finnst ósanngjarnt í þessari umræðu að veitast að forseta þingsins með þeim hætti sem hér er gert. Þessir ráðherrar voru í þingsal, heyrðu beiðnina og ákváðu að vera ekki hér. Það er ekki á ábyrgð forseta þingsins. Hvorki ráðherrar né þingmenn eiga að gegna forseta þingsins. Okkur ber sem kjörnum fulltrúar samkvæmt þingsköpum að sinna þeim skyldum sem okkur ber en það er ekki forseta að lemja okkur til hlýðni.