143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nánast engin önnur mál en þessi Evrópusambandsmál hafa verið á dagskrá þingsins í þrjár vikur. Það er náttúrlega eftir því tekið að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki látið svo lítið að vera viðstaddur þá umræðu yfir höfuð, sá sem leiðir ríkisstjórnina. Hæstv. utanríkisráðherra hefur setið hér en þetta mál er á miklu stærri skala en svo að það dugi að ráðherra málaflokksins sé hér. Hér verða forustumenn ríkisstjórnarinnar að vera báðir til staðar og ef það er boðlegt að halda þingfund klukkan að verða þrjú um nótt er boðlegt að kalla ráðherra til umræðunnar samkvæmt ósk þingmanns. Þannig hefur það verið og þannig þarf það að vera inn í framtíðina nema einhver ný ákvörðun verði tekin. Þetta er hluti af eftirlitsskyldu þingmanna og hluti af samskiptum löggjafarvalds (Forseti hringir.) og framkvæmdarvalds. Þetta verður einfaldlega að vera í lagi en ég vísa ábyrgðinni alveg eins og hún leggur sig til ráðherranna.