143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef setið í fjórum ríkisstjórnum og hef ekki tölu á þeim skiptum sem þingmenn hafa óskað eftir nærveru minni að degi, kvöldi eða næturlagi og það hefur aldrei brugðist að forseti þingsins hefur gert mér viðvart, kannski ekki skipað mér að koma en sagt að það væri eindregin ósk hans að ég kæmi. Það er rétt sem fram hefur komið að hæstv. forseti getur ekki skipað þeim að koma en ég held að það hafi aldrei gerst, ég veit ekki til þess, að formaður stjórnmálaflokks hafi beðið um að fá ráðherra og að ekki hafi verið orðið við því.

Það kann vel að vera að hæstv. forseti geti ekki fært þá hingað í böndum en hann verður að gæta bæði að rétti þingmanna og virðingu sjálfstæðis þingsins. Það sem hann getur gert er að fresta þessari umræðu. Hann ræður hvort hann gerir það eða ekki en hann yrði fyrsti forsetinn sem léti með þessum hætti fara með þingið.