143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer að verða augljósara hversu vanhugsuð þessi tillaga er og hversu mikið skortir upp á umræðu um þetta mikilvæga mál. Hér hefur hæstv. utanríkisráðherra setið meira eða minna allan tímann en hann hefur ekki keyrt sig út í andsvörunum. Hann hefur vissulega góða nærveru, en það hefði verið mjög mikilvægt [Hlátur í þingsal.] að hæstv. ráðherra hefði tjáð sig meira um þetta mál.

Það má alveg gantast af því að klukkan er orðin margt en þetta er mikið alvörumál. (ÁsmD: Já.) Heyrðist þá í hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni þar sem hann jammaði. (ÁsmD: Ég sagði já, ekki jamm.) (Gripið fram í: Það er hans innlegg til umræðunnar.)

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Já, ég er með orðið. Hér á að breyta framtíð Íslands með þingsályktunartillögu sem er rædd á nóttunni og við höfum lítinn ræðutíma í, en óræddar liggja skýrslur um afnám verðtryggingar sem ekki verður og um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar sem ekki eru til fjármunir til að framfylgja.

Mig langar til að ítreka spurningu til hv. þingmanns sem ég er í andsvari við og hefur talsverða innsýn í ríkisfjármál hvernig hún sjái þetta fyrir sér. Er sú stefna sem á að taka hér við sem eitthvert leiðarljós ekki bara innantóm orð?