143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[03:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá verðum við að umorða spurninguna og spyrja með neikvæðum formerkjum: Telur hæstv. utanríkisráðherra, eftir þann flumbrugang sem hann sjálfur hafði forustu fyrir hér í þinginu, og skapað hefur öll þau vandræði sem hér hafa verið síðustu þrjár vikurnar, að enn komi til álita að afgreiða þessa tillögu úr utanríkismálanefnd til síðari umr. óbreytta að efni til og taka til samþykktar í þinginu?

Telur hæstv. utanríkisráðherra — eftir þau mótmæli sem verið hafa í samfélaginu, eftir að 82% landsmanna vilja fá að greiða atkvæði um framhald viðræðna, eftir 50 þús. undirskriftir og öll þau viðbrögð sem komu formanni Sjálfstæðisflokksins svo mjög á óvart, eftir það sem gengið hefur á síðustu þrjár vikurnar — að enn komi til álita að afgreiða þessa tillögu óbreytta sem samþykkt Alþingis og slíta með því aðildarviðræðum við Evrópusambandið með einföldum meiri hluta á Alþingi án aðkomu þjóðarinnar? Telur hæstv. utanríkisráðherra að þetta komi enn til greina eða telur hann að leita þurfi annarra lausna í málinu?