143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég las á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins telur koma til greina að efna til sumarþings. Það kom mér nokkuð á óvart því að mér var ekki ljóst að störf þingsins væru í þeirri upplausn og þeim ógöngum að á því væri þörf, en ef svo er er það eitthvað sem við þurfum að taka til umfjöllunar. Ég vildi þess vegna inna hæstv. forseta eftir því hvort hér væru óskir um að efnt yrði til sumarþings vegna þess verkleysis sem verið hefur hjá ríkisstjórninni og málaskorts lengi fram eftir vetri. Hefur forseti þá í hyggju að óska eftir viðræðum við þingflokka um slíkt þinghald?

Það er alveg ljóst að það þarf að vera samkomulag þingflokka á Alþingi um þær breytingar sem gera á á starfsáætlun og hvaða mál ætti þá að taka fyrir á slíku þingi.