143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er gott til þess að vita að staða starfsáætlunar þingsins er óbreytt. Það er afar mikilvægt leiðarljós okkar í þingstörfunum að hún liggi fyrir og að breytingar á henni séu ekki gerðar öðruvísi en í góðu samráði. Ég fagna því að forseti geri hér grein fyrir þeirri stöðu.

Mig langar til þess í upphafi þingfundar að gera það að umtalsefni að hæstv. forsætisráðherra er ekki viðstaddur óundirbúinn fyrirspurnatíma, hvorki í dag né er fyrirhugað að hann verði hér hinn daginn. Það er orðið nokkurt þrástef í samskiptum forsætisráðherra við þingið að hann er oftar fjarri en gott gæti talist, ekki síst í ljósi þess hversu ítrekað hann hefur boðað bætt vinnubrögð og hagað sínum samskiptum við þingið með öðrum hætti en boðað er.