143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp vegna þess að mér blöskrar nokkuð. Ég hef haft beiðni fyrirliggjandi um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra síðan 27. janúar um að ræða við okkur þingmenn um afnám gjaldeyrishafta og samninga við erlenda kröfuhafa. Það er málefni sem hæstv. forsætisráðherra ræddi töluvert og af mikilli ákefð í síðustu kosningabaráttu en þessari beiðni hefur sem sagt ekkert verið sinnt. Það er mjög óvenjulegt.

Þar áður var ég í marga mánuði með fyrirliggjandi beiðni um sérstaka umræðu um stöðu fullveldisins, sérstaklega í ljósi EES-samningsins og út af því ýmsum álitamálum tengdum stjórnarskránni. Þeirri beiðni var ekkert sinnt. Nú hefur komið á daginn að hæstv. forsætisráðherra hefur mætt í eina sérstaka umræðu á kjörtímabilinu. Þetta gengur ekki.

Ég ætla af þessu tilefni að breyta beiðni minni. Ég nenni ekki lengur að bíða eftir að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og tali við mig um afnám gjaldeyrishafta (Forseti hringir.) og fer fram á að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, geri það frekar.