143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:38]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Vissulega vil ég að við stöndum við starfsáætlun okkar. Það var ekkert í mínum orðum sem vildi rugga henni. Ég byrjaði á að segja að það væru tveir mánuðir til þingloka og að ég teldi að við gætum unnið vel og klárað þau mál sem við settum á oddinn. Þá var gengið á mig, eins og þið þekkið, af fréttamönnum og þá sagði ég að það hefði áður gerst að hér hefðu verið haldin sumarþing þannig að það gæti vel komið til greina. Þannig voru orðin og ég tel bara að við eigum að vinna hér vel og þá klárum við þetta á þessum tveim mánuðum. Verum ekkert að viðhalda neinu málþófi eða vífilengjum, göngum bara hratt og vel til verka.