143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki orða bundist vegna þess sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á áðan um að hann sé ítrekað búinn að bíða eftir sérstökum umræðum við hæstv. forsætisráðherra. Hið sama hefur átt við um hv. þm. Árna Pál Árnason og aðra þá hv. þingmenn sem hafa reynt að eiga hér orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Ögmundur Jónasson var lengi með beiðni í haust og aldrei var því kalli svarað.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort Alþingi ætli að láta bjóða sér það að formaður Framsóknarflokksins, svokallaður verkstjóri ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, sem líka er hv. þingmaður og hefur ákveðnum skyldum að gegna við Alþingi, mæti hér ekki til að svara hv. þingmönnum þegar þeir koma fram með fullkomlega gildar beiðnir og óska eftir að eiga orðastað við leiðtoga ríkisstjórnarinnar um brýn mál? Er það svo að hv. þingmenn þurfi að gera eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og beina orðum sínum til annarra ráðherra eins og hæstv. fjármálaráðherra? Er þetta boðleg framkoma, virðulegi forseti, gagnvart Alþingi? Ég vil fá svör um það því að þetta gengur ekki lengur.