143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir skýr svör um að ekki standi til að halda sumarþing. Það er vandalaust af hálfu stjórnarandstöðunnar að vinna að góðum framgangi mála en til þess þurfa þau að koma fram í tíma þannig að hægt sé að rýna þau í samræmi við efni þeirra. Forseti hefur margsinnis hvatt ríkisstjórnina til að koma með mál hingað inn en hún hefur ekki brugðist við því. Hún verður þar af leiðandi að lifa með því hvernig sleifarlag hennar hefur áhrif á getu þingsins til að vinna þau mál sem hún kann að koma með ef þau koma seint og illa fram.

Varðandi síðan það sem að öðru leyti hefur verið sagt skiptir máli að ræða hér með hvaða hætti ríkisstjórnin kemur fram gagnvart þinginu. Í síðustu viku tókst ekki að koma á einni einustu sérstakri umræðu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir vegna þess að ráðherrar voru ekki til viðræðu.

Hér hefur verið rætt um tregðu forsætisráðherra til að mæta í þingið og ég sjálfur fyrir mitt leyti er eiginlega hættur að eltast við umræðu sem lá inni mánuðum saman (Forseti hringir.) frá mér til hans og hyggst snúa mér að því að eiga orðastað við aðra ráðherra. Það er þó ekki boðlegt fyrir Alþingi sem býr við mörg hundruð ára sögu að ríkisstjórnin virði það að vettugi með þessum hætti.