143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að koma hér upp aftur en tel það óhjákvæmilegt eftir orð hæstv. fjármálaráðherra. Ástæða ræðna hér á undanförnum vikum um fundarstjórn forseta hefur verið fráleit framganga stjórnarmeirihlutans, óboðleg þingsályktunartillaga, greinargerðir sem fólu í sér ærumeiðandi ummæli, óskýr svör stjórnarmeirihlutans um það með hvaða hætti lýðræðisleg umræða fengi að fara fram í þinginu o.s.frv. Það heitir sjálfskaparvíti, hæstv. ráðherra, og er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans.

Ef menn ætla að halda áfram að hafa umræðuna í þinginu á þeim forsendum eru þeir auðvitað að setja allt þingstarf í uppnám. Það er enginn skortur á vilja okkar til málefnalegrar umræðu um mál en við ætlum ekki að skapa svigrúm fyrir ríkisstjórnina til að auðveldara verði fyrir hana að svíkja gefin loforð, auðveldara fyrir hana að fullfremja þau brot sem hún hefur þegar gefið til kynna að hún hafi áhuga á að fremja, og leyfa henni að gera það í skjóli nætur eða fela það í nefndum og komast hjá umræðu meðal þjóðarinnar um framgöngu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki í boði af okkar hálfu.