143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þegar mál er á dagskrá eins og það að slíta skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem þjóðin vill klárlega ekki, þá fer minni hlutinn að sjálfsögðu af stað og reynir að þæfa málið, skapar líka þannig svigrúm að undirskriftasafnanir geti átt sér stað o.s.frv. Fundarstjórn forseta er það verkfæri sem hefur verið notað mikið núna. Önnur verkfæri er líka hægt að nota en fundarstjórn forseta er eitt. Það er bara að almenningur skilji það hvers vegna verið er að nota þessi verkfæri.

En það er annað verkfæri sem væri hægt að nota. Í danska þinginu getur 1/3 hluti þingmanna vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef við hefðum svoleiðis verkfæri á Alþingi og hægt væri að setja það í þingsköp, ég er búinn að athuga það, þá væri ekki hægt að koma fram með svona mál sem þjóðin er klárlega á móti. Þetta er eitthvað sem við gætum einbeitt okkur að til að bæta þingstörfin, að fá í þingsköp það verkfæri að 1/3 hluti þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.