143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þegar gagnrýni er haldið á lofti er oft gott að grípa til tölfræðinnar. Mig langaði aðeins að fjalla um hversu oft hæstv. forseti hefur staðið fyrir því að á dagskrá séu sérstakar umræður á þessum þingvetri. Frá því að haustþingið byrjaði hafa verið hér 30 sérstakar umræður. Til samanburðar voru 40 sérstakar umræður allan þingveturinn árið 2010–2011. Á því tímabili sem eftir er af þessu þingi höfum við nokkra daga og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti muni leitast við að koma fyrir á dagskránni nokkrum sérstökum umræðum til viðbótar þannig að við munum ná því að vera á réttu róli varðandi meðaltal sérstakra umræðna á þessu þingi. Rétt er að geta þess jafnframt að á sumarþinginu voru 14 sérstakar umræður.