143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra til upplýsingar: Þegar menn hafa klúðrað samningaviðræðum um mikilvæga þjóðarhagsmuni eins og makrílmálið þá er það ekki nein sérstök greiðasemi ráðherra við þingið að koma hér og upplýsa um stöðu þess. Það er nú einfaldlega embættisskylda ráðherrans. Og ég frábið mér sérstaka einkunnagjöf um það hvort þingmenn halda hér málefnalegar ræður eða ekki.

Rétt er að óska eftir því að skrifstofan taki saman hversu oft þingmenn Framsóknarflokksins annars vegar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hins vegar tóku til máls um fundarstjórn forseta á liðnu kjörtímabili. Við höfum þá einhverja mælikvarða til að bera okkur saman við.

Auðvitað er það þannig að rætt er um fundarstjórn forseta þegar þingstörfum er hleypt í uppnám og það þarf engum að koma á óvart að mönnum bregði þegar þeim er tilkynnt á forsíðu Fréttablaðsins að til greina komi að halda sumarþing. Auðvitað kann að þurfa að gera það en við áttum nú kannski von á því að heyra það þá bara frá forseta Alþingis með eðlilegum hætti á fundi í forsætisnefnd þingsins. Þegar menn standa svona illa að málum eins og ríkisstjórnin hefur gert, meðal annars með ærumeiðandi ummælum í greinargerð um stjórnarmálefni, þá náttúrlega kallar það á umræður hér í þinginu.

Ég legg því til að ríkisstjórnin vandi betur vinnubrögð sín og komi fyrr inn með mál. (Forseti hringir.) Það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum.