143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[13:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Liðurinn fundarstjórn forseta er í mínum huga ekki tæki til einhvers heldur vettvangur. Ef maður þarf að tala um fundarstjórn forseta þá er það vegna þess að maður er ósáttur við eitthvað. Ég sá mig tilknúinn til að tala um fundarstjórn forseta áðan vegna þess að beiðnum mínum, og annarra þingmanna hefur komið í ljós, um sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra, er ekki sinnt. Hvernig á maður að koma því á framfæri öðruvísi en undir liðnum fundarstjórn forseta? Þetta varðar þingið og hvernig það starfar.

Nú bíð ég eftir því að einhver viðbrögð verði við þessu. Á að bæta úr þessu? Þetta er mjög slæmt fyrir þingmenn. Ef maður leggur fram beiðni um sérstaka umræðu má maður ekki leggja fram aðra beiðni meðan sú beiðni liggur fyrir. Maður getur þá ekkert gert meðan hæstv. forsætisráðherra tekur margar vikur jafnvel mánuði í að svara ekki beiðni manns. Þetta er einfaldlega framkoma sem ekki nær nokkurri átt og ég held að hún sé einsdæmi. Ég held að svona framkoma gagnvart þinginu sé einsdæmi í sögu Alþingis.