143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

um fundarstjórn.

[14:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherrum til upprifjunar þá var það sögulegt klúður ríkisstjórnarinnar sem leiddi til þess (Gripið fram í: Icesave.) að þingið var meira og minna í ruglinu í þrjár heilar vikur, (Gripið fram í: Icesave.) á meðan hér fór fram umræða um tillögu hæstv. utanríkisráðherra og skýrslu hans og nefndadaga sem voru ekki notaðir til þess að ná saman fólki hér. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson viðurkenndi í útvarpinu í morgun að tímasetningin hefði verið vond. Var eitthvað undarlegt þó að menn þyrftu að ræða það hér?

Ég vil spyrja virðulegan forseta: Er hæstv. forsætisráðherra ekki til svara í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag og heldur ekki á fimmtudaginn? Er hann í opinberum erindagjörðum og verður hann það út vikuna? Við þurfum að vita það hér hvort um sé að ræða slík forföll að þau séu á vegum þingsins og á vegum hins opinbera eða hvort þau séu einhvers annars eðlis.