143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

heilbrigðistryggingar.

[14:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar áhyggjur eftir að ég las grein prófessors Ragnars Árnasonar, sem er formaður ráðgjafaráðs hæstv. fjármálaráðherra um efnahagsmál og ríkisfjármál, undir yfirskriftinni: „Samfélagsleg skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga“ í nýjasta tölublaði Hjálmars, blaðs hagfræðinema við Háskóla Íslands. Þar leggur hann út frá því að rétt sé að gjalda varhuga við opinberum niðurgreiðslukostnaði og það skjóti mjög skökku við að þessar niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustu séu látnar ekki aðeins afskiptalausar heldur þyki bara almennt hið besta mál. Niðurstaða hans er að hagur meðalmannsins rýrni með opinberum heilbrigðistryggingum. Ég tel þessa grein ekki standast nein rök því það að miða við hag meðalmannsins og segja að það sé breytan sem mæli hag samfélagsins tel ég hreinlega ekki standast almenna rökfræði því að við hljótum að dæma samfélagið á því hvernig við tryggjum sem best tækifæri allra.

En það sem veldur mér áhyggjum er ekki að prófessorinn eigi við nokkrar hagfræðilegar æfingar. Það veldur mér áhyggjum að prófessorinn er formaður ráðgjafaráðs hæstv. ráðherra, væntanlega hans helsti ráðgjafi í efnahags- og ríkisfjármálum. Því finnst mér mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur hér á þinginu hver hans afstaða er til þessa máls, hvort hugsanlega sé, í samvinnu hans og hæstv. heilbrigðisráðherra sem situr við hliðina á honum, verið að vinna að breytingum sem lúta að því að breyta róttækt hinu íslenska heilbrigðiskerfi, sem lúta að opinberum heilbrigðistryggingum; heilbrigðiskerfinu okkar sem er félagslegt heilbrigðiskerfi, sem er, samkvæmt öllum alþjóðlegum rannsóknum, mun ódýrara en önnur þau kerfi sem við höfum byggt upp, hvort sem það eru skyldutryggingakerfi eða einkarekstrarkerfi eins og í Bandaríkjunum.

Er þetta, hæstv. ráðherra, liður í einhverri stefnumótun sem unnin er á vegum ríkisstjórnarinnar eða ráðgjafaráðsins eða eru þetta meira hagfræðilegar æfingar?