143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

heilbrigðistryggingar.

[14:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er reyndar rétt hjá hv. þingmanni að Svíþjóð er að breytast í fyrirmyndarríki fyrir miðju hægri stefnu, þar er einmitt verið að vinna niður atvinnuleysið, auka hagvöxt og lífskjörin batna hvað hraðast á Norðurlöndunum og í allri Evrópu reyndar. Menn líta til Svíþjóðar í því samhengi og stærsta breytingin sem átt hefur sér stað þar er einmitt sú að ríkið tekur sífellt minna til sín af þjóðarframleiðslu.

En varðandi þær fullyrðingar að einkaframtakið geti ekki náð meiri framleiðni þá höfum við okkar eigin dæmi hér. Við höfum dæmi úr heilsugæslunni, úr Salastöðinni, þ.e. í Salahverfinu er heilsugæslustöð og ef við miðum við þann samning sem þar er og hvernig þau afköst sem þar er að finna hefðu komið út annars staðar þá er augljóst að afköstin eru langmest á viðkomandi stöð sem er í einkarekstri. Þau eru 60% yfir meðalafköstum stöðva heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 60% yfir og kostnaðurinn er minni. Þetta er eitt lítið dæmi sem ég bið menn að líta til þegar verið er að velta fyrir sér hvort eitthvert vit sé í að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.