143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

menningarsamningur.

[14:20]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvernig standi á því að ekki er búið að ganga frá menningarsamningnum við landshlutasamtök sveitarfélaga en samningurinn rann út um áramót og nú er 18. mars. Þessi staða er ekki góð. Í raun hefur það alvarleg áhrif á menningarstörf á landsbyggðinni þar sem ekki er hægt að veita styrki til menningarverkefna á árinu 2014 en enn er verið að bíða eftir því að þessi samningur verði í höfn. Við heyrum jafnvel að umsækjendur séu að draga til baka umsóknir sínar og verkefni að falla niður.

Ég veit ekki til að það strandi á fjármagni en gert er ráð fyrir þessum samningi í fjárlögum. Þó hef ég heyrt einhverjar efasemdir um það hvort atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið verði aðili að þessum samningi áfram en veit þó ekki betur en gert sé ráð fyrir 30 millj. kr. á liðnum 04-559-198 sem heitir Ferðamál, ýmis verkefni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það sem tefur gerð menningarsamninga við samtök sveitarfélaga á landsbyggðinni? Hvenær hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að leysa þetta mál og gerir hann sér grein fyrir alvarleika málsins?