143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

menningarsamningur.

[14:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég geri mér grein fyrir því að það skiptir máli að þessir samningar klárist sem fyrst. Reyndar var boðuð sérstök umræða um stöðu menningarsamninga sem ég held að hafi upphaflega verið hugsuð í dag en var frestað um óákveðinn tíma. Ég vona að hún fari fram sem fyrst þannig að við getum farið ágætlega í gegnum þetta.

Fyrir liggur að ákveðið var að draga úr menningarsamningunum um 10%, framlaginu. Við skoðuðum sérstaklega hvort við ættum að breyta þeim reiknireglum sem lágu til grundvallar frá fyrri skiptingu og kölluðum eftir athugasemdum um það. Það var síðan niðurstaða mín að affarasælast væri að halda sig við þær reiknireglur sem höfðu verið mótaðar áður og láta niðurskurðinn jafnt yfir alla ganga.

Það hefur reyndar valdið því að gamlar deilur frá fyrri tíð, um fyrri skiptingu og þá niðurstöðu sem fékkst síðast þegar samningurinn var gerður, hafa að nokkru skotið upp kollinum og við eigum enn eftir að leysa þar nokkur mál. Ég vonast til þess að það leysist sem fyrst. Hitt ber líka að hafa í huga að til skoðunar eru, undir forustu forsætisráðherra, ákveðnar breytingar á heildarfyrirkomulagi þessara mála og ég vonast til að við verðum komin með fast land undir fæturna í því máli sem fyrst.