143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

frumvarp um aukna siglingavernd og flugöryggismál.

[14:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um það frumvarp sem lagt var fram hér á þinginu varðandi aukna siglingavernd og flugöryggismál. Ég held að frumvarpið sé sniðið að siglingavernd og flugöryggismál hafi blandast þar inn í. Mig langar því að vita hvað hafi kallað á þessar auknu bakgrunnsskoðanir fyrir flugverndina, hvort krafan hafi komið frá erlendum flugmálayfirvöldum eða hvort eitthvert atvik hafi komið upp sem kallaði á þessa kröfu um auknar bakgrunnsskoðanir.

Málið hefur sett ævistarf margra í hálfgert uppnám þar sem verið er að kalla eftir persónuupplýsingum um skuldamál og annað slíkt, sem mér skilst að vísu að eigi ekki að vera grundvöllurinn, einungis sé heimild til að skoða þau ef þess þarf. En eins og staðan er á Íslandi í dag veldur þetta að sjálfsögðu miklu uppnámi þar sem mjög margir eru skuldugir. Það skiptir því miklu máli að fá á hreint hvort þörf sé á þessu og af hverju þetta sé komið fram, hvað hafi kallað á það.

Þetta getur nefnilega líka skapað okkur vandamál. Ef við erum með auknar bakgrunnsskoðanir hér þá er erfiðara að kalla flugvirkja frá öðrum löndum fyrir sérhæfðan búnað, þyrlurnar okkar og annað slíkt, af því að þessi flugverndarskírteini gilda á milli landa. Og ef þau duga, þ.e. sú bakgrunnsskoðun sem er í öðrum löndum, þá hljóta þau að duga líka hjá okkur.

Atvinnurekendur, sem þurfa að uppfylla allar kröfur til að mega fljúga á milli landa, eru á móti þessum auknu kröfum sem við ætlum að gera. Þess vegna vildi ég fá að vita um þörfina, hvort þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara eftir hér.