143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í athugasemdum með frumvarpinu, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var að mæla fyrir, stendur, með leyfi forseta:

„Lauslega metið gæti vísitala neysluverðs lækkað um 0,08% verði frumvarpið að lögum svo fremi áhrifunum verði að öllu leyti velt út í verðlag með samsvarandi aukningu í kaupmætti ráðstöfunartekna.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um aðrar gjaldskrár og hækkanir sem þar hafa verið settar fram eins og til dæmis varðandi úthlutun til þeirra sem þurfa nauðsynlega að nota hjálpartæki. Þar er verið að tala um öndunarvélar, gervibrjóst, bleiur, bað- og sturtustóla með og án hjóla, hjálpartæki í bifreið, staf og hækjur, rafknúna hjólastóla og öryggiskallkerfi og þetta er allt saman að hækka um 10% upp í 77%. Þarna er kaupmáttur þeirra sem þurfa nauðsynlega á þessum hjálpartækjum að halda að rýrna stórkostlega og þarna erum við að tala um fólk sem getur ekki lifað án þess að nýta þessi hjálpartæki; en við getum þó valið hvort við kaupum okkur tóbak eða brennivín.

Tekjur ríkissjóðs eiga að aukast um 150 millj. kr. með álögum á fólk sem þarf nauðsynlega á hjálpartækjum að halda. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki eigi einnig að lækka þessa gjaldskrá og bæta þannig kaupmátt og ráðstöfunartekjur þeirra sem þurfa á hjálpartækjum að halda.