143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp sem samþykkt var fyrir áramót um breytingar á ýmsum krónutölugjöldum og sköttum.

Nú er það svo að fjöldinn allur af gjöldum sem renna í ríkissjóð tók engum breytingum um áramót, ýmis leyfisgjöld, ýmis dómsmálagjöld. Fjöldinn allur af gjaldskrám tók engum breytingum og voru því ekki færðar upp til samræmis við verðlagsbreytingar eins og þær voru áætlaðar. Þær breytingar sem við gerðum, með samþykkt laganna fyrir áramót, var að finna í því frumvarpi sem við erum hér að breyta til baka. Við erum að tryggja að ekkert hækki þá um 3% heldur förum við aftur niður í 2%.

Svo eru önnur gjöld sem er að finna annars staðar en ekki í þessu frumvarpi sem er eftir atvikum á forræði einstakra ráðherra að kveða upp úr með. Almenna reglan með þau gjöld er að þau renna ekki beint í ríkissjóð heldur skapa oft og tíðum sértekjur fyrir einstakar stofnanir. Þau gjöld sem hv. þingmaður rekur hér sérstaklega þekki ég ekki nákvæmlega en ég tek eftir því að þingmaðurinn segir að þau breytist með ýmsum hætti og heildaráhrifin fyrir ríkið séu upp á nokkur hundruð milljóna. Stundum eru slíkar breytingar til þess fallnar að draga úr kostnaði ríkisins, stundum er grundvöllur breytinganna tekjuauki fyrir einstakar stofnanir, þ.e. myndar sértekjustofn, en gjöldin sem þarna er um að ræða eru ekki hluti af því þingmáli sem við ræðum hér og var ekki breytt í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega þær breytingar sem hv. þingmaður vísar til og segir að feli í sér 70% hækkun á tilteknum gjöldum.