143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar upplýsingar allar er að finna í þingskjali sem var dreift hér á föstudaginn sem svar við spurningu minni sem hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði. Þar er talað um að breytingar þær sem eru gerðar, þ.e. þessar gjaldskrárhækkanir, eigi að skila 150 millj. kr. vegna hjálpartækja og til viðbótar 100 millj. kr. frá þeim sem þurfa nauðsynlega á þjálfun að halda, hvort sem það er talþjálfun eða sjúkraþjálfun. Í svarinu stendur að þessum reglugerðum sé ætlað að svara sérstökum hagræðingaráformum gildandi fjárlaga, lækka útgjöld og bæta afkomu ríkissjóðs.

Mér finnst að við verðum að skoða þetta í samhengi. Þó að hér sé verið að tala um frumvarp annars vegar og reglugerðir hins vegar er í báðum tilfellum verið að tala um kjör fólks og ráðstöfunartekjur og í öðru tilfellinu okkar veikasta fólk. Ég vona að forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar verði með öðrum hætti og að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því.