143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð að rifja það upp í þessari umræðu að það eru ekki margar vikur síðan við fengum sérstakar áskoranir í þingið um að hætta við allar þessar hækkanir. Meðal annars voru forustumenn í Reykjavíkurborg með miklar meiningar um að ríkið ætti að hætta við þetta allt saman, þar með talið hækkun gjalda á áfengi og tóbak.

Ég vil taka það fram að þegar upp er staðið erum við að hækka gjöldin á áfengi og eldsneyti miðað við það sem var á árinu 2013. Við drögum hins vegar úr hækkuninni þannig að gjöldin á áfengi og tóbak hækka bara ekki um 3%, þau hækka um 2% miðað við 2013, verði þessar breytingar framkvæmdar.

Varðandi það hvort ekki hefði frekar átt að líta til heilsugæslunnar, komugjöldin hækka vissulega um 20%, en þau hafa líka rýrnað um 40% frá 2008. Stutta svarið við því hvers vegna þessi tilteknu gjöld eru undir í þessu (Forseti hringir.) máli er að þetta eru gjöldin sem hafa mest áhrif á verðlagið.