143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra víki sér undan því að rædd sé forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, því að ekki verður betur séð af þessari stuttu umfjöllun en að verið sé að leggja t.d. til að lækka gjöld á tóbak um 1% en á öðrum stað í tengslum við fjárlagafrumvarpið sé hins vegar verið að hækka gjöld á öndunarvélum. Ég held að við getum öll verið nokkuð sammála um að það sé nokkuð kyndug forgangsröðun í gjaldamálum og ætti kannski frekar að vera á hinn veginn, nokkuð augljóslega.

Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. fjármálaráðherra um kostnaðarmat á lækkun raforkuskattsins, því að ég fann þess ekki stað í greinargerðinni með málinu. Lækkun á raforkuskattinum varðar náttúrlega ekki launþega sérstaklega í landinu. Þetta er fyrst og fremst ívilnun við stóriðjuna. Þótt lækkunin sé ekki mikil, einn eyrir, safnast nú saman kílóvattstundirnar. Það væri áhugavert að heyra frá ráðherranum hvað tekjutapið af þeirri tillögu felur í sér.

Fyrst og fremst vil ég spyrja formann Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, um tillögur hans um lækkun á hækkuninni á bensíngjaldi, vegna þess að hann hefur nýlega hækkað það gjald um 3% og nú lækkar hann um 1% og segir okkur í þinginu að það muni leiða til 270 millj. kr. tekjutaps. Fyrir ekki nema tveimur árum síðan flutti hæstv. fjármálaráðherra þingmál um að lækka mjög verulega gjöld á eldsneyti og hélt því fullum fetum fram í þessum stól að það mundi í engu draga úr tekjum ríkissjóð, vegna þess að lækkunin mundi leiða til aukinnar notkunar á eldsneyti og þess vegna engin áhrif hafa á tekjur ríkissjóðs. Er hann enn þá sömu skoðunar? Um það hlýtur maður að spyrja í fyrsta lagi. Og ef hann er enn þá sömu skoðunar hvers vegna er ekki lagt alveg til að falla frá þegar ákvarðaðri hækkun á bensíngjöldunum um 3% í staðinn fyrir að vera (Forseti hringir.) að lækka hækkunina úr 3% í 2%?