143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi raforkuskattinn mun þurfa að kalla eftir því hver hlutur hans er í heildarlækkuninni í nefndinni. Ég er ekki með sundurliðun hvað raforkuskattinn snertir við höndina.

Varðandi eldsneytisgjöldin að öðru leyti er alveg rétt að við lögðum það til á síðasta kjörtímabili að fara í dálítið myndarlega lækkun á eldsneytisgjöldum. Það var sett fram í því samhengi sem við lifðum í þá, sífellt var verið að þrengja að heimilunum í landinu með t.d. hærri tekjuskatti, með t.d. hærra virðisaukaskattsþrepi. Við fórum upp með virðisaukaskattinn og virðisaukaskattshækkun ein og sér ofan á hækkanir á eldsneytisgjöldunum leiddu til verulega aukinna útgjalda. Við bentum þarna á mikilvægi þess að draga úr þeirri miklu skattlagningu sem til dæmis bitnar á landsbyggðinni.

Nú hefur ný ríkisstjórn tekið við og hún er með aðra skattstefnu. Við leggjum meðal annars áherslu á breytingar á tekjuskattskerfinu og erum með virðisaukaskattskerfi í heild sinni undir í endurskoðun í dag. Að þessu sinni má segja að forgangsröðunin birtist í því að við viljum frekar halla okkur að þeim skattstofnum en eldsneytisgjaldinu einu og sér. Annars er það mjög áhugaverð skoðun að fara yfir, þ.e. áhugaverð rannsókn sem mætti fara í að skoða, hvernig líklegt er að tekjur ríkisins þróist af eldsneytisgjöldum á næsta áratug eða svo þar sem bílar eru almennt orðnir miklu sparneytnari og allir hvatar í innflutningsgjöldum stýra neytendum í átt að sparneytnari og léttari bílum, auk þess sem vélarnar eru orðnar eyðslugrennri. (Forseti hringir.) Þetta hefur orðið til þess að meðaleyðslan á ekinn kílómetra skreppur mjög hratt saman.