143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér eru skýr fordæmi á sveitarstjórnarstiginu dregin fram. Það er alveg öruggt að ríkisstjórnin mun ekki fylgja fordæmi því sem meiri hlutinn í Reykjavíkurborg hefur sýnt á síðastliðnu kjörtímabili. Þar var eitt fyrsta verk meiri hlutans að fara upp í hámarksútsvar og nú sýna úttektir að gjaldahækkanir á kjörtímabilinu hafa kostað meðalfjölskyldu í Reykjavík rúmlega 400 þús. kr. á ári. Bara gjaldahækkanirnar valda viðbótarsköttum og gjöldum fyrir meðalfjölskylduna upp á 400 þús. kr. Það er ekki fordæmi sem ríkisstjórnin mun leita til og elta uppi.

Varðandi komugjöldin, ég hef tekið það margoft hér fram að þau hafa að raungildi lækkað um 40% frá árinu 2008. Það kann að vera stefnumörkun Samfylkingarinnar að horfa upp á sértekjur stofnana í ríkiskerfinu dragast saman reglulega þangað til þær verða nánast að engu, en þá þurfum við að fjármagna viðkomandi stofnanir með einhverjum öðrum hætti, með því að leggja skatta á alla. Ég trúi því að rétt sé að dreifa þessu, annars vegar að veita fjárheimildir og hins vegar að innheimta lágt, sanngjarnt komugjald, t.d. í heilsugæslunni. Það er núna 1.200 kr., miklu lægra en almennt gerist á öðrum Norðurlöndum, svo að dæmi sé tekið.

Verðbólgan, ja, hver eru áhrifin af aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Fyrstu áhrifin voru þau að með því að ríkisstjórnin kynnti áform sín þá tókust kjarasamningar. Ekki eru það nú slæm áhrif. Í öðru lagi, nú er talið að verðbólgan verði innan verðbólguviðmiðs Seðlabankans næstu mánuði.

Ég verð að segja svona heilt yfir: Ég botna hvorki upp né niður í þeim áherslum sem þingmaðurinn er hér að kynna, vegna þess að þegar við kynntum hækkanir á þessum gjöldum þá vorum við gagnrýnd harðlega. Þá var sagt: Þið eigið alls ekki að hækka gjöldin. Nú, þegar við erum að lækka þau, þá erum við líka gagnrýnd og sagt: Til hvers eruð þið að lækka bensíngjaldið og tóbakið og áfengið? Alls ekki að lækka þetta, þið eigið að lækka eitthvað annað. (Forseti hringir.)

Hvort vill hv. þingmaður að bensín- og tóbaksgjöld séu hækkuð eða lækkuð (Forseti hringir.) eða bara látin standa óbreytt frá árinu 2013?