143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Meiri hlutinn í Reykjavík hefur einfaldlega sent á meðalfjölskylduna 400 þús. kr. gjaldskrárhækkun, það er það sem ég er að draga hér fram. Við ætlum ekki að líta til þess fordæmis í okkar aðgerðum. En eftir situr að hv. þingmaður hefur bæði lagst gegn hækkuninni og nú leggst hann gegn lækkuninni. Hann vill ekki þessa lækkun á eldsneytisgjöldunum og á tóbaks- og áfengisgjöldunum, en hann var hins vegar á móti hækkuninni í desember. Ég vona að menn virði mér það til vorkunnar að ég bara skil ekki þennan málflutning. Ég hefði svo sem skilið það ef menn hefðu sagt að lækka hefði átt gjöldin miklu meira, en þá fellur það á þeim rökum sem hv. þingmaður hefur teflt hér fram að það muni ekki skila sér í lægra verðlagi.

Með sömu rökum hefði maður getað sagt: Ja, það þýðir ekkert að halda þessu óbreyttu vegna þess að eldsneytisgjaldið hækkar bara eftir því sem olíufélögin ákveða hverju sinni.

Niðurstaðan af öllu þessu er einfaldlega sú að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna markaðnum, sem ríkisstjórnin á að jafnaði enga beina aðild að, einungis óbeina til að reyna að greiða fyrir, skiluðu þeim árangri að nú er búið að ganga frá öllum samningum. Þeir hafa verið samþykktir af því sem næst öllum aðildarfélögunum. Það er árangur sem við ættum að reyna að lyfta hér upp og viðurkenna. Það hlýtur að skipta máli það sem gert var hefur að minnsta kosti tryggt að komnir eru kjarasamningar, gríðarlega mikilvægir. Vissulega er ástandið enn viðkvæmt en samningarnir hafa verið samþykktir. Ég vil meina að það sé meðal annars vegna þeirra aðgerða sem við höfum hér kynnt til sögunnar.

Við skulum setja þessar gjaldskrárbreytingar í samhengi við skattalækkanir sem við erum að kynna til sögunnar, innan við 2 milljarðar eru í gjaldskrárhækkunum. Við lækkuðum tekjuskattinn um 5 milljarða og aðra (Forseti hringir.) skatta um nokkra milljarða þar til viðbótar. Þegar við skoðum þetta í þessu samhengi sjáum við ástæðu þess að fjárlagafrumvarpið kynnir þá niðurstöðu að kaupmáttur ráðstöfunartekna (Forseti hringir.) vex á árinu 2014.