143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil út frá spurningunni um hvort skynsamlegt væri að frysta þessar gjaldskrár allar segja að ég skil að sjálfsögðu hv. þingmann og áherslur hans á að ríkið leggi af mörkum í sambandi við verðlagið og til að greiða götu kjarasamninga. Þar hefði svo sannarlega mátt standa betur að verki, bæði í sambandi við skattalækkanir og fleira. Ég verð þó að vera sjálfum mér samkvæmur í því að ég sagði bæði í haust og hér í umræðum um fjárlög að ég væri ekki talsmaður þess, brenndur af reynslunni, að það væri almennt heppilegt að slaki myndaðist í tekjustofnum af þessu tagi, eins og bensíngjaldi, olíugjaldi, tóbaksgjaldi, áfengisgjaldi o.s.frv.

Ef það er þannig að ríkisstjórnin ætlar að afsala um 460 millj. kr. tekjum finnst mér þetta vera meira spurningin um hvar á að láta það koma fram. Ef ég man rétt áttu krónutöluhækkanirnar að skila 1,5–1,8 milljörðum kr. í heild sinni í fjárlagagrunninn. Þá er þetta auðvitað orðin spurning um að ráðstafa ígildi þeirra fjármuna til einhverra þeirra hluta sem við teljum að sé skynsamlegast að gera.

Ég hefði viljað ganga miklu lengra og taka allar þessar hækkanir og setja þær inn í það að koma í veg fyrir gjaldskrárhækkanir eða jafnvel lækka í einhverjum tilvikum gjöld sem fyrir eru miðað við einhverja félagslega greiningu. Ég nefni auðvitað komugjöldin í heilbrigðiskerfið. Ég nefni því lyfjakostnaðinn og að lagfæra hluti sem blasa núna við eftir að nýja kerfið tók gildi, t.d. verulega íþyngjandi breytingar fyrir sykursjúka. Er hv. þingmaður mér ekki sammála um að við getum alveg eins notað fjármunina með millifærslu innan kerfanna í sýnilegar og umtalsverðar lækkanir sem kæmu einhverjum slíkum hópum til góða, og gera það frekar en að smyrja þunnt yfir línuna í þessum gjöldum?