143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég bakka ekki með það að mér finnst fullt tilefni hafa verið til að fara yfir það, ef menn ætluðu að ráðstafa upp undir hálfum milljarði af ríkistekjum til baka, að gera það með öðrum hætti en þeim sem hér er lagður upp. Jú, jú, þetta er voðalega einfalt að bakka einu prósenti af þessum þremur á þessa tilteknu flokka, út úr því komi 460 milljónir og málið búið.

Varðandi ÁTVR var það auðvitað það sem ég var að vísa í. Ég efast ekkert um að ÁTVR fer ekki á hausinn, það ræður við að skutla nokkur hundruð milljónum í viðbót í arðgreiðslur inn í ríkissjóð á þessu ári, en þeir peningar koma ekki af himnum. Þeir eru teknir frá ÁTVR og út úr efnahag fyrirtækisins; annaðhvort gengur það á eigið fé sitt eða það þarf að vinna það upp aftur með aukinni álagningu á komandi árum. Þannig er það.

Að lokum um vegamálin. Það skiptir víst máli, hæstv. fjármálaráðherra, hvernig þetta bókhald er úr því að núverandi ríkisstjórn, sú fyrsta í háa herrans tíð, tók þessa útreikninga upp á borðið og er farin að krefjast þess að Vegagerðin skili til baka í ríkissjóð af mörkuðum tekjum sínum. Ég er reyndar ósammála þeirri nálgun að það hafi verið þannig hér á umliðnum árum að þegar menn ákváðu að auka sérstaklega vegaframkvæmdir, umfram það sem markaðir tekjustofnar dygðu til, hafi alltaf staðið til að skuldfæra það hjá Vegagerðinni og rukka það aftur til baka. Ég man ekki eftir þeirri umræðu. Ég man hins vegar eftir hinu að menn sögðust ætla að bæta við peningum úr ríkissjóði til þess að gera átak í þessum og hinum samgöngumálum.

Ef það á að vera framtíðin að „meint“ skuld vegasjóðs við ríkið eigi nú að fara að borgast til baka, þá skiptir heldur betur máli að veikja ekki tekjustofna vegasjóðs. Þetta er því ekki haldgóð röksemd hjá þeim hinum sama fjármálaráðherra (Forseti hringir.) og lagði fram fyrsta fjárlagafrumvarpið í háa herrans tíð þar sem Vegagerðinni er ætlað að fara að skila ríkissjóði til baka.