143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek enn og aftur athygli á því að framlögin hækka um 2% á árinu 2013. Þau eru lækkuð hér um 1%, en eftir stendur 2% hækkun.

Um það hvernig við fjármögnum vegaframkvæmdir í landinu þurfum við að ræða við annað tilefni, en það liggur alveg fyrir að sérmerktar tekjur til Vegagerðarinnar hafa langt í frá getað staðið undir þeim framkvæmdum sem við höfum verið í. Það má spyrja þeirrar spurningar hvort eitthvert vit sé í þessu fyrirkomulagi yfir höfuð þegar farið er að muna tugum milljarða sem veitt er til framkvæmda á fjárlögum, uppsafnað á nokkrum árum, borið saman við sértekjur stofnunarinnar, þegar þeim er greinilega aldrei ætlað að standa undir því sem Vegagerðin er að fást við.

Varðandi grænu skattana vil ég minna á að það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem sú skýrsla var unnin sem síðar lagði grunninn að þeim breytingum á vörugjaldakerfi (Forseti hringir.) vegna innflutnings á bifreiðum þar sem við færðum okkur í átt til þess að ívilna þeim sem eru minna mengandi.