143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held nú að ef menn væru spurðir að því almennt hvort t.d. — ég segi nú ekki bensíngjaldið, því að við getum haft samúð með því að velflestar fjölskyldur eða mjög margar fjölskyldur reka fjölskyldubíl og það getur verið ágætt markmið í sjálfu sér að auðvelda fólki það. Það getur gegnt öðru máli um bíl númer tvö eða þrjú eða ýmsan lúxus í þessum efnum. Tóbakið liggur dálítið fjær því að geta flokkast sem einhver venjuleg nauðsynjaheimilisútgjöld, þannig að það er ekki alveg samræmi í þessu.

Ef menn væru spurðir: Hvort vilja menn nota þessa fjármuni í að lækka komugjöld á heilsugæslustöðvar, draga úr kostnaði tiltekinna hópa innan nýja lyfjaendurgreiðslukerfisins sem urðu fyrir mestri íþyngingu, eins og sykursjúka eða eitthvað slíkt, eða lækka tóbaksgjald? þá er ég alveg sannfærður um að svarið yrði að lækka hið fyrrnefnda.

Varðandi mörkuðu tekjustofnana nefndi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér sjálfur að það þyrfti kannski að fara að setjast yfir fjáröflun til framkvæmda í vegamálum. Það er alveg rétt, þess þarf, (Forseti hringir.) og þar á meðal hvort áfram á að byggja á mörkuðum tekjum að einhverju eða öllu leyti eða hvort það á t.d. að fara (Forseti hringir.) út í gjaldtöku sem tengist notkun eins og við sjáum að (Forseti hringir.) gerst hefur í miklum mæli í nágrannalöndunum.