143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég byrji á öfugum enda, ef menn ganga í umferðarskattana yfir höfuð, þá hefði ég viljað verja hina mörkuðu tekjustofna Vegagerðarinnar. Ég er satt best að segja hundfúll að sjá það gert ofan á það sem kom í fjárlagafrumvarpinu í haust og var því miður samþykkt. Vegagerðin var í raun og veru alveg sérstaklega grátt leikin og það má segja um flugið, upp að vissu marki, líka. Það var gert með tvennum hætti, sem voru algjört frávik frá því sem lagt hafði verið upp með. Annars vegar var Vegagerðina látin byrja á því að skila til baka mörkuðum tekjum sínum í ríkissjóð, 1,3 eða 1,4 milljörðum, og hins vegar voru færðar á Vegagerðina framkvæmdir sem fyrri ríkisstjórn áformaði að borga með almennu skattfé, t.d. innviðauppbyggingin í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir á Bakka. Það var aldrei meiningin að það skerti almennt vegafé, þvert á móti var hinu gagnstæða heitið hér úr ræðustól, en nú er það viðbótarbyrði á Vegagerðinni. Það er mjög slæmt.

Varðandi ÁTVR er mér illa við bókhaldsæfingar eins og þá að kjósa sér einhverja þægindaleið með því að ætla að ná 10 milljörðum út úr einhverjum æfingum milli ríkissjóðs og Seðlabankans eða með því að fara inn í efnahagsreikninga ÁTVR og taka arð út úr þeim rekstri sem er miðað við það sem ég vissi a.m.k. best umfram það sem framlegð fyrirtækisins ræður við á hverju ári. Það var á nippinu að ÁTVR gæti staðið skil á 1 milljarði árin 2010, 2011, 2012 og 2013 og á væntanlega að gera það núna 2014 og þá bætast þarna einhver hundruð milljóna við. Það tel ég vera rangt.

Varðandi það hvort sú herfræði hafi einhvern tíma freistað mín að koma inn með meiri hækkanir og draga svo eitthvað úr þeim, ja, stundum var það borið upp á mann að maður hefði opnað ýmsa hluti mjög bratt, vitandi það að maður yrði að gefa eitthvað eftir en ná kannski 70% í gegn. (Forseti hringir.) Í raun og veru höfðum við ekki ráð á því, hv. þingmaður, það var einfaldlega (Forseti hringir.) þannig að við urðum að fara hingað inn með mjög brattar tillögur um skattahækkanir og tekjuöflun (Forseti hringir.) og hanga á öllu sem mögulega var hægt að koma í gegnum þingið. Aðstæður buðu ekki upp á annað.