143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að mikilvægt er að lesa svörin vel. Það er nefnilega svo að þetta er lækkun á meðgjöfinni sem Sjúkratryggingar veita þannig að þetta er hækkun á því sem sjúklingurinn þarf að borga. Þannig er það. Það er ekkert í þessu svari, alla vega ekki hvað varðar þá spurningu sem ég spurði, sem gefur tilefni til bjartsýni því að allt eru þetta miklar hækkanir. Bara lækkunin á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga á bleium hefur verið reiknuð út sem 4–5 þús. kr. á mánuði fyrir fullorðinn einstakling sem þarf að nýta sér bleiur eingöngu. Þarna erum við að tala um öryrkja sem þurfa á þessu að halda.

Öryrkjar fengu vissulega einhverjar kjarabætur á síðasta ári eða um áramótin en þær eru allar, eða mest af þeim, farnar í burtu með þessari reglugerð. Það er alveg rétt að sumar upphæðirnar eru ekki mjög háar og okkur sem höfum næga peninga handa á milli þykja þær kannski ekki mjög háar, en persónulega þekki ég dæmi um fólk sem þessi hækkun skiptir mjög miklu máli. Það fólk þarf að leita hjálpar aðstandenda vegna þess að kjörin fyrir hækkunina eru svo slæm að fólkið þolir ekki hækkunina. Þetta er fólk sem ekki getur valið sig frá því að nýta sér þessa þjónustu.