143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg skilið að það þyrfti að lækka gjöld sem reiknuðust inn í vísitöluna. Ég held að alveg augljóst sé að það sé hugmyndin með þessu, að það komi inn í vísitöluna og að því leyti hagnist flestum. En þetta er auðvitað lág upphæð þegar upp er staðið.

Ég hef áhyggjur af því yfir höfuð að þessi ríkisstjórn sé að gera svo marga hluti sem munu augljóslega auka á ójöfnuð í samfélaginu. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Bein greiðsluþátttaka sjúklinga hefur á undanförnum árum farið vaxandi hér á landi. Hún hefur farið vaxandi, það er rétt, og það er þróun sem við ættum frekar að stöðva en halda áfram með. Þegar við berum saman álögur á áfengi og tóbak eða að lækka álögur á áfengi og tóbak eða á hjálpartæki og sjúkraþjálfun þá er ekki neinn vafi í mínum huga um hvort ég hefði valið. Fyrir utan það virðist það eina sem hefur marktæk áhrif á neyslu áfengis og tóbaks vera verðlag. Það hefur verið sýnt fram á að hægt er að stýra neyslunni í gegnum verðið á vörum sem eru í rauninni eitraðar og valda sjúkdómum, við ofneyslu það minnsta. Ég hefði horft sérstaklega á það. Ég hefði viljað fara öðruvísi með þær 190 milljónir og horfa þá til fólks sem getur ekki án þess verið að kaupa þá þjónustu sem verið er að rukka fyrir.